Um okkur

Ferðafélag Rangæinga var stofnað 1. mars 2022 og eru stofnfélagar um 200 talsins. Ferðafélag Rangæinga, skammstafað FFRang, er áhugamannafélag með þann tilgang að hvetja fólk á öllum aldri til útivistar í hinu fagra Rangárþingi. Félagið vill stuðla að ferðalögum og almennri lýðheilsu á félagssvæðinu auk þess að styðja almennt við og auka umhverfisvitund og hlúa að menningararfi svæðisins. Stefnt er að því m.a. að skipuleggja langar og stuttar, léttar og erfiðari göngur, hjólaferðir og hvers konar útivistarferðir við hæfi sem flestra. Starfssvæði félagsins er Rangárvallasýsla en allir er velkomnir í félagið, óháð búsetu og öllum öðrum flokkunum! Við erum svo heppin að hér í Rangárvallasýslu eru ótal fagrir og spennandi áfangastaðir að heimsækja og verður af nógu að taka á næstu árum.

Hægt er að ganga í félagið með því að fylla út þetta rafræna eyðublað og smella á senda en árgjaldið er 8.500 kr. FFRang er deild í Ferðafélagi Íslands og þeir sem eru þegar félagar í FÍ eða öðrum deildum geta óskað eftir að flytja félagsaðild sína yfir til FFRang með því að haka við í sérstakan reit á fyrrgreindu eyðublaði og við sjáum til þess að breyta aðildinni. Þá eru reglurnar þannig að hjón/sambýlisfólk greiða samtals 1 og ½ árgjald til FFRang en njóta bæði engu að síður félagsaðildar FÍ og þeirra afsláttarkjara sem þar gilda en fá eina árbók FÍ. Aðild félagsmanns gildir einnig fyrir börn og unglinga heimilisins upp að 18 ára aldri sem njóta þá afsláttarkjaranna líka. Kjarni starfseminnar er að skipuleggja ferðir og hér er nýjasta ferðaáætlun félagsins.

Fullt var út úr dyrum á stofnfundi Ferðafélags Rangæinga í Menningarsalnum á Hellu þann 1. mars 2022 en einnig var stór hópur sem tók þátt í fundinum í gegnum fjarfund. Undirbúningshópur að stofnun félagsins hafði þá verið starfandi í nokkrar vikur og var tillaga undirbúningshópsins um að stofna Ferðafélag Rangæinga samþykkt einróma á fundinum og með dúndrandi lófataki að auki. Félagið er deild í Ferðafélagi Íslands og var undirbúningur að stofnun þess unninn í góðu samstarfi við forystufólk FÍ. Einhugur var á stofnfundi að stefna að líflegri dagskrá hjá félaginu strax á fyrsta ári og gekk það svo sannarlega eftir en m.a. var skipulögð sérstök Stofnganga þann 1. maí 2022 er gengið var á Stóru-Dímon og má segja að þátttaka hafi slegið öll met er 250 manns stóðu samtímis á toppi fjallsins.