Lög og reglur

Lög Ferðafélags Rangæinga

1. gr.

Félagið heitir Ferðafélag Rangæinga, skammstafað FFRang. Félagssvæðið miðast við hin gömlu héraðsmörk Rangárvallasýslu og nágrenni.

2. gr.

Félagið er áhugamannafélag og vill stuðla að ferðalögum, útivist og almennri lýðheilsu á félagssvæðinu auk þess að styðja almennt við og auka umhverfisvitund og hlúa að menningararfi Suðurlands.

3. gr.

Félagið er deild í Ferðafélagi Íslands og greiðir til þess árgjald, en starfar sjálfstætt og hefur sjálfstæðan fjárhag. Reikningsár félagsins er almanaksárið. Innan Ferðafélags Rangæinga má stofna nefndir um sérstök viðfangsefni, s.s. ferðanefnd, stikunefnd, uppstillinganefnd skv. 6. gr. o.s.frv.

4. gr.

Stjórn FFRang skipa 5 einstaklingar; forseti, varaforseti, ritari, féhirðir og meðstjórnandi. Forseti skal kosinn sérstaklega, árlega. Aðrir stjórnarmenn skulu kosnir á tveggja ára fresti, 2 í hvert sinn, og skipta þeir með sér verkum. Þó skal kjósa 3 menn ef annar þeirra sem situr í stjórn er kosinn forseti. Í varastjórn skulu 2 menn kosnir árlega og sitja þeir stjórnarfundi og hafa atkvæðisrétt í forföllum aðalmanna. Stjórn telst ályktunarfær ef meirihluti hennar sækir fund. Stjórnin skipar nefndir eftir þörfum sbr. 3. gr.

5. gr.

Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Hann skal halda fyrir marslok ár hvert.

Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

  1. Skýrsla stjórnar um starfsemi liðins árs.
  2. Samþykkt ársreiknings félagsins vegna liðins árs.
  3. Lagabreytingar
  4. Stjórnarkjör.
  5. Kosning tveggja skoðunarmanna.
  6. Ákvörðun árgjalds.
  7. Önnur mál.

Aðra félagsfundi boðar stjórnin til þegar henni þykir ástæða til, en er skyld til þess ef 25 félagsmenn hið minnsta æskja þess skriflega. Komi slík beiðni fram skal boða til félagsfundar þegar í stað og skal hann haldinn innan 10 daga frá því beiðnin barst stjórn. Aðal- og félagsfundir teljast lögmætir ef þeir eru boðaðir með viku fyrirvara í héraðsmiðlum og á “Facebókarsíðu“ félagsins. Atkvæðisrétt hafa allir fullgildir meðlimir félagsins. Til breytinga á lögum félagsins þarf samþykki meirihluta fundarmanna á aðalfundi enda hafi breytingartillögurnar verið kynntar í aðalfundarboði.

6. gr.

Til undirbúnings aðalfundar ár hvert skal starfa uppstillingarnefnd skipuð þremur fulltrúum innan FFRang Nefndin gerir tillögur til aðalfundar um einstaklinga í stjórn og varastjórn, ásamt tveimur skoðunarmönnum.

7. gr.

Verði félaginu slitið skal eignum þess ráðstafað til hliðstæðs félags innan starfssvæðisins, Ferðafélags Íslands eða annarra deilda þess.

8. gr.

Ákvæði til bráðabirgða:

Þrátt fyrir ákvæði í 4. gr. skal á stofnfundi félagsins kjósa tvo af stjórnarmönnum til eins árs, tvo til 2ja ára og forseta sérstaklega til eins árs.

 

Þannig samþykkt á stofnfundi Ferðafélags Rangæinga þann 1. mars 2022.

Viðbragðsáætlun FFRang við einelti, ofbeldi og kynferðislegri og kynbundinni áreitni